„Gagnagíslataka jókst um 21 prósent í janúar á þessu ári miðað við árið á undan. Aldrei fleiri hafa jafn mörg tilvik verið skráð frá 2020,“ segir Trausti, sölustjóri HP hjá OK. Hann segir að samkvæmt heimildum rannsakenda standi á fjórða tug hópa á bak við þessar árásir.
„Meðal stærstu atvika má nefna árás á AWS og á MetLife,“ segir Trausti.
Hann segir að gagnagíslataka sé tölvuárás, þar sem forrit sem dulkóðar gögn, er komið fyrir á tölvu án vitneskju notanda og hann krafinn um fjármuni til að fá aðgang að gögnum sínum aftur. Ef ekki er greitt fyrir gögnin eru dæmi um að þau séu sett á sölu á huldunetinu [e. Dark web]. Til eru slík dæmi hjá íslenskum fyrirtækjum.
Mikilvægt að notendur séu á varðbergi
„Það er lykilatriði að almennir notendur og fyrirtæki séu á varðbergi þegar kemur að því hverju sé treystandi og hvaðan hlekkir og upplýsingar koma á netinu. Við vinnum náið með tæknirisanum HP þegar kemur að öryggislausnum, meðal annars sem snýr að öryggi í tölvubúnaði notenda. Í tölvum er hægt að vernda grunnstýrikerfi tölvunnar gegn árásum. Það er gert með sérstökum búnaði þar sem hægt er að láta notanda vita áður en vélin kveikir á sér og ógnin kemst inn á vélbúnaðinn og stýrikerfið. Þá er möguleiki á að einangra spilliforrit og koma í veg fyrir að þau komist í gögn eða stýrikerfi hjá notanda. Það er hægt að nota þá lausn óháð því hvaða tölvuframleiðanda fyrirtækið eða einstaklingur er að nota,“ segir Trausti.
„Við fundum það á vefviðburðinum að öryggismál á tölvuinnviðum eru notendum og fyrirtækjum ofarlega í huga, hvort sem þau tengjast útstöðum eða stærri lausnum sem ná yfir vélbúnað og netkerfi fyrirtækisins. Þessi mál þurfa að vera í sífelldri endurskoðun svo mögulegt sé að bregðast við þeim ógnum sem eru til staðar hverju sinni.“