Glódís Perla tók ekki þátt er lið hennar Bayern Munchen tapaði fyrir Lyon í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Hún hefur verið að glíma við beinmar í hné og er hreinlega í kapphlaupi við tímann fyrir leikina í byrjun apríl, samkvæmt Þorsteini.
Glódís er næstleikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 133 leiki. Eftir því sem næst verður komist hefur hún ekki misst af landsleik vegna meiðsla síðan landsliðsferilinn hófst 2012. Hún hefur til að mynda aldrei misst af leik í stjóratíð Þorsteins.
„Hún hefur aldrei misst af leik en ég hef einu sinni haft hana á bekknum. Það var bara æfingaleikur á móti Filippiseyjum, í þriðja leik á Pinatar Cup. Þá var hún á bekknum í þeim leik. Ég held það sé fyrsti landsleikur sem hún spilar ekki frá því að hún byrjaði í landsliðinu. Ég ætla ekki að sverja fyrir það, en ég held það sé svoleiðis,“ segir Þorsteinn.
Það munar því um minna, enda Glódís á meðal betri varnarmanna heims og var valin íþróttamaður ársins hér á landi í fyrra.
„Það er ástæða fyrir því að hún hefur alltaf verið í þessu liði. Það er bara gæði hennar og geta sem eru á þeim stað að hún hefur alltaf skipt landsliðið máli. Eins og á Pinatar Cup var þetta bara út af álagi að maður vildi ekki láta hana spila þrjá leiki á sex dögum, þannig að ég hvíldi hana í þeim leik,“ segir Þorsteinn.
Viðtalið við Þorstein má sjá í spilaranum. Hann ræðir þar einnig samskiptin við Bayern Munchen, heimavöll Þróttar, hvar leikir Íslands fara fram, og andstæðingana Sviss og Noreg.