Erlent

Heathrow lokað fram til mið­nættis og 1.300 flug­ferðir felldar niður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lokunin mun hafa gríðarleg áhrif á flugumferð um allan heim.
Lokunin mun hafa gríðarleg áhrif á flugumferð um allan heim. AP/Kirsty Wigglesworth

Heathrow-flugvelli hefur verið lokað í kjölfar þess að eldur kom upp í rafstöð í vesturhluta Lundúna. Völlurinn verður lokaður fram til miðnættis en lokunin er sögð munu hafa áhrif á flugumferð um allan heim. 

Flug Icelandair frá Keflavík til Heathrow klukkan 07:35 hefur verið fellt niður og einnig flug British Airways klukkan 11:45. Sama á við um flug félaganna frá Heathrow til Keflavíkur klukkan 10:55 og 15:30.

Yfir 1.300 flugferðum til og frá Heathrow hefur verið aflýst og 120 vélar sem voru í loftinu þegar vellinum var lokað neyddust til að lenda annars staðar, til að mynda á Gatwick.

Sérfræðingar segja lokunina munu hafa gríðarleg áhrif á flugumferð og raunar samgöngur um allan heim.

Ljóst er að Gatwick og Stansted munu ekki geta annað allri þeirri umfeðr sem fer um Heathrow, þar sem flugvélar lenda á svo til hverri mínútu. 

Farþegum hefur verið ráðlagt frá því að ferðast á flugvöllinn og bíða þess í stað nánari upplýsinga.

Yfir 16.000 heimili eru án rafmagns vegna eldsvoðans og yfir 100 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×