Innlent

Til­búinn að leiða flokkinn á­fram

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti því yfir í ræðu á fundi miðstjórnar flokksins í dag, að hann sé til í að leiða Framsókn og vinnuna áfram, að loknu flokksþingi.

Í ræðu sinni kom hann inn á það hvenær best væri að halda flokksþing, en umræða hefur verið um það meðal flokksmanna hvort flýta eigi flokksþingi, þar sem kosið er í embætti flokksins eins og formann.

Flokksþing er að jafnaði haldið á tveggja ára fresti, og var síðast haldið í apríl 2024.

„Við þurfum meðal annars að ræða hvenær hentar okkur best að hafa næsta flokksþing ... ég mun ekki leggja til einhvern sérstakan tíma. Mér finnst að Miðstjórnarfundurinn eigi að ræða það,“ sagði Sigurður Ingi.

Ríkisstjórnin fari ekki vel með vald

Sigurður Ingi kom víða við í ræðu sinni og sagði meðal annars að ræða þyrfti vald og meðhöndlun þess.

„Almenningur á að geta treyst því að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð og í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar. Síendurteknar fréttir af framferði forystufólks í ríkisstjórninni gefa hins vegar tilefni til að álykta að þetta fólk fari ekki alltaf rétt með það vald sem þeim hefur verið falið.“

Þá sagði hann að Framsókn væri hætt að spila vörn, eins og þau hafi gert síðustu mánuðina í ríkisstjórn, og komin í sókn í stjórnarandstöðu.

„Nú sækjum við fram,“ sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×