Erlent

Segir heim­sókn Ushu Vance og Mike Waltz til Græn­lands „ögrun“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Varaforsetafrúin er sögð ætla að heimsækja sögufræga staði á Grænlandi.
Varaforsetafrúin er sögð ætla að heimsækja sögufræga staði á Grænlandi. Getty/Saul Loeb

Usha Vance, varaforsetafrú Bandaríkjanna, er væntanleg til Grænlands á fimmtudag, þar sem hún hyggst heimsækja sögufræga staði og fræðast um landið.

Með henni í för verða Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, og orkumálaráðherrann Chris Wright, sem munu meðal annars heimsækja herstöð Bandaríkjamanna.

Ekki er um opinbera heimsókn að ræða.

Múte Egede, forsætisráðherra Grænlands, brást illa við fregnunum og sagði heimsókn Waltz „ögrun“. Eins og þekkt er orðið hefur Trump nú ítrekað rætt það að innlima Grænland. Það sé allt að því óumflýjanlegt.

„Eini tilgangurinn er að sýna vald sitt,“ sagði Egede um heimsókn þjóðaröryggisráðgjafans.

„Hann er trúnaðarmaður Trump og hans nánasti ráðgjafi og dvöl hans á Grænlandi ein og sér mun fá Bandaríkjamenn trúa á vegferð Trump og þrýstingurinn mun aukast eftir heimsóknina.“

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segist taka fregnum af  heimsókninni alvarlega. Danir vildu vinna með Bandaríkjamönnum en sú samvinna þyrfti að byggjast á virðingu fyrir sjálfræðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×