Fótbolti

Fékk fund með Heimi og hló með honum eftir markið

Sindri Sverrisson skrifar
Adam Idah og Heimir Hallgrímsson glaðbeittir eftir sigurinn í gær.
Adam Idah og Heimir Hallgrímsson glaðbeittir eftir sigurinn í gær. Getty/Michael P Ryan

Adam Idah innsiglaði sigur Írlands í einvíginu við Búlgaríu, í umspilinu um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA í fótbolta. Hann hafði fengið fund með Heimi Hallgrímssyni í von um að spila meira og saman glöddust þeir í gærkvöld.

Írarnir hans Heimis afrekuðu í gær það sem Íslendingum mistókst á sama tíma – að halda sér uppi í B-deild Þjóðadeildarinnar.

Idah er framherji skoska liðsins Celtic og hefur meðal annars skorað þrjú mörk í Meistaradeild Evrópu í vetur. Hann kom ekkert við sögu á fimmtudaginn þegar Írar unnu 2-1 útisigur í fyrri leiknum við Búlgaríu en lék síðustu 25 mínúturnar í heimaleiknum í gær og skoraði sigurmarkið í 2-1 heimasigri, á 84. mínútu. Fram að því marki hefði Búlgaríu dugað eitt mark til að komast í framlengingu.

Idah segir það hafa borgað sig að óska eftir fundi með Heimi eftir leikinn í Búlgaríu á fimmtudag.

„Ég var vonsvikinn um daginn með að fá ekki að koma inn á. Ég iðaði í skinninu að koma inn á heima og það var góður bónus að skora,“ sagði Idah við BBC.

„Ég talaði við Heimi en það var ekkert í slæmu. Ég vildi bara vita af hverju ég kom ekki inn á, í ljósi þeirrar leiktíðar sem ég hef átt. Það var gott, ég þurfti líklega að eiga þetta spjall eftir að hafa misst af síðasta leik,“ sagði Idah og bætti við:

„Hann sagði að þegar ég fengi tækifærið ætti ég að fara og sýna hvað ég kann, og hann gaf mér mínúturnar og það var frábært að ná að skora. Við hlógum aðeins og grínuðumst eftir þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×