Fótbolti

Sigur Arnórs í fyrsta leik en á­fram leiðindi hjá liði Mikaels og Bjarka

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson er byrjaður að spila með Malmö og fagnaði sigri í fyrsta leik.
Arnór Sigurðsson er byrjaður að spila með Malmö og fagnaði sigri í fyrsta leik. Malmö FF

Arnór Sigurðsson var í byrjunarliði Malmö í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag og fagnaði sigri. Á Ítalíu lék Íslendingalið Venezia enn einn leikinn án þess að skora og varð að sætta sig við tap.

Arnór hafði verið að glíma við meiðsli og var ekki með íslenska landsliðinu í umspilinu gegn Kósovó en lék í sextíu mínútur með Malmö í dag, í 1-0 útisigri gegn Djurgården. Daníel Tristan Guðjohnsen var hins vegar ekki í leikmannahópi Malmö sem hefur titil að verja í deildinni í ár.

Í efstu deild Ítalíu var Mikael Egill Ellertsson á sínum stað í byrjunarliði Venezia í dag en Bjarki Steinn Bjarkason, sem líkt og Mikael var með í einvíginu við Kósovó, var á varamannabekk Venezia.

Mikael Egill Ellertsson var í liði Venezia í dag líkt og vanalega.getty/Franco Romano

Liðið tapaði 1-0 á heimavelli gegn Bologna og hefur þar með spilað þrettán deildarleiki í röð án sigurs. Það sem meira er þá hefur Venezia aðeins boðið stuðningsmönnum sínum upp á eitt mark í síðustu sjö deildarleikjum sínum.

Eins og gefur að skilja er Venezia í fallsæti en þó með 20 stig eftir 30 leiki, fimm stigum frá næsta örugga sæti. Bologna hefur aftur á móti unnið fimm leiki í röð og er í 4. sæti með 56 stig, á leið í Meistaradeild Evrópu ef fram heldur sem horfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×