Fótbolti

Cecilía fagnaði ó­trú­legum sigri á toppliði Juventus

Sindri Sverrisson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er með Inter í næstefsta sæti á Ítalíu og algjör lykilmaður í liðinu.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er með Inter í næstefsta sæti á Ítalíu og algjör lykilmaður í liðinu. Getty/Mairo Cinquetti

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð að vanda í marki Inter í dag þegar liðið vann topplið Juventus 3-2, í ítölsku A-deildinni í fótbolta, þar sem lokamínúturnar voru með hreinum ólíkindum.

Juventus virtist vera að landa sigri þegar Sofia Cantore fann leið framhjá Cecilíu og kom liðinu í 2-1 á 88. mínútu.

Á þriðju mínútu uppbótartíma jafnaði hins vegar Tessa Wullaert, lærimey Elísabetar Gunnarsdóttur úr belgíska landsliðinu, með marki úr vítaspyrnu. Þá var svo enn tími fyrir varamanninn Elisu Polli til að skora sigurmark Inter.

Með sigrinum komst Inter upp fyrir Roma í 2. sæti deildarinnar, með 42 stig, en Juventus er áfram efst með 49 stig nú þegar fimm umferðir eru eftir.

Cecilía er nú væntanleg til Íslands vegna leikjanna við Noreg og Sviss í Þjóðadeildinni, á föstudag og þriðjudaginn 8. apríl. Hún er eini markvörðurinn í íslenska hópnum sem verið hefur að spila með sínu félagsliði því Telma Ívarsdóttir var ekki í leikmannahópi Rangers í Skotlandi í dag og Fanney Inga Birkisdóttir á bekknum hjá Häcken í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×