Janus Daði og félagar hans í ungverska félaginu PICK Szeged tryggðu sér sætið með frábærum útisigri á Paris Saint-Germain.
Parísarliðið hafði unnið fyrri leikinn með einu marki í Ungverjalandi, 31-30, en Ungverjarnir léku miklu betur í kvöld. Svo vel að Frakkarnir réðu ekkert við þá.
Szeged vann leikinn á endanum með tíu mörkum, 35-25, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 17-11.
Szeged vann því samanlagt 65-56 og mætir Barcelona í átta liða úrslitunum. Í hinum leikjunum mætast Magdeburg-Veszprém, Nantes-Sporting og Füchse Berlin-Aalborg.
Janus Daði skoraði þrjú mörk fyrir Szeged í kvöld en markahæsti leikmaður liðsins var Mario Sostaric með sjö mörk.