Körfubolti

Flórída háskólameistari í fyrsta sinn í á­tján ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Walter Clayton yngri, skærasta stjarna Flórída, klippir netið eftir sigurinn á Houston í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans.
Walter Clayton yngri, skærasta stjarna Flórída, klippir netið eftir sigurinn á Houston í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans. getty/Brett Wilhelm

Úrslitaleikur bandaríska háskólaboltans var gríðarlega spennandi en úrslitin réðust undir blálokin. Flórída hafði þá betur gegn Houston, 65-63.

Flórída var tólf stigum undir í seinni hálfleik en kom til baka og tryggði sér sinn fyrsta háskólameistaratitil síðan 2007. Meðal leikmanna í því liði voru Al Horford og Joakim Noah.

Houston fékk tækifæri til að jafna eða vinna leikinn í lokasókn sinni en varð ekki kápan úr því klæðinu og Flórída hélt út. Liðið vann leikinn þrátt fyrir að leiða aðeins í 63 sekúndur.

Houston tapaði boltanum fimm sinnum á síðustu þremur og hálfu mínútu leiksins og skoraði ekki síðustu tvær mínúturnar og tuttugu sekúndurnar.

Flórída var einnig undir í seinni hálfleik í átta liða úrslitunum gegn Texas Tech og gegn Auburn í undanúrslitunum en kom alltaf til baka.

Will Richard skoraði átján stig og tók átta fráköst hjá Flórída og Alex Condon skoraði tólf stig. Aðalstjarna Krókódílanna, Walter Clayton yngri, skoraði ellefu stig og gaf sjö stoðsendingar.

L.J. Cryer skoraði nítján stig fyrir Houston sem bíður enn eftir sínum fyrsta háskólameistaratitli. Flórída hefur aftur á móti þrisvar sinnum orðið meistari: 2006, 2007 og 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×