Fótbolti

„Þarf alltaf að hugsa um það versta sem getur gerst“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn Ingibjörg Sigurðardóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir.
Fyrirliðinn Ingibjörg Sigurðardóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir. Vísir/Anton Brink

„Mjög svekkjandi, eigum ekki að vera fá á okkur þrjú mörk, sérstaklega á móti þessu liði. Mikilvægt að við komum til baka og sterkt af liðinu,“ sagði fyrirliðinn Ingibjörg Sigurðardóttir eftir 3-3 jafntefli Íslands og Sviss í Þjóðadeild kvenna í fótbolta.

Ingibjörg bar fyrirliðabandið í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttur. Ísland lenti hins vegar 0-2 undir en náði á endanum í stig þökk sé þrennu Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Ingibjörg var spurð út í mörk gestanna.

„Ekkert þannig, vissum að þær væru að fara taka hlaup á bakvið línu. Ekki nægilega gott hjá okkur og þurfum að vera þéttari,“ sagði fyrirliðinn aðspurð hvort fyrsta markið hefði komið á óvart.

„Ég sem varnarmaður þarf alltaf að hugsa um það versta sem getur gerst, þarna missir Berglind Rós (Ágústsdóttir) af boltanum og ég er ekki tilbúin að dekka svæðið á bakvið hana. Það er klárlega eitthvað sem ég get gert betur.

Um tvöföldu skiptinguna

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, gerði tvöfalda skiptingu í fyrri hálfleik þegar staðan var 2-0 Sviss í vil.

„Það var eitthvað sem þurfti að gerast. Held að fleiri leikmenn hefðu getað farið af velli á þessum tímapunkti. Ekki að Berglind Rós og Sædís rún (Heiðarsdóttir) væru þær sem voru lélegastar á vellinum. Við þurftum breytingar og Áslaug Munda (Gunnlaugsdóttir) og Dagný (Brynjarsdóttir) komu sterkar inn.“

Um Karólínu Leu

„Karólína Lea var frábær Virkilega gaman að sjá hana stíga upp þegar við þurfum á henni að halda. Sýnir að hún er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og er að taka mjög stór skref,“ sagði Ingibjörg að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×