Fótbolti

Elísa­bet stýrði Belgíu til sigurs á Eng­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elísabet tók við Belgíu fyrr á þessu ári.
Elísabet tók við Belgíu fyrr á þessu ári. Dan Istitene/Getty Images

Belgía gerði sér lítið fyrir og lagði ríkjandi Evrópumeistara Englands 3-2 í Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Belgíu og var þetta fyrsti sigur liðsins undir hennar stjórn.

Belgía byrjaði leikinn af krafti og tryggði sér í raun sigur með magnaðri frammistöðu fyrsta hálftíma leiksins. Heimakonur komust yfir strax á 4. mínútu, markadrottningin Tessa Wullaert þar að verki eftir undirbúning Jill Janssens.

Justine Vanhaevermaet tvöfaldaði svo fyrstu Belgíu eftir sendingu Wullaert þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn. Ef það var ekki nóg þá bætti Wullaert við öðru marki sínu og þriðja marki Belga þegar tæpur hálftími var liðinn. Staðan orðin 3-0 og Belgar í draumalandi Betu.

Beth Mead minnkaði muninn af vítapunktinum þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks og staðan 3-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Hin 19 ára gamla Michelle Agyemang minnkaði muninn enn frekar á 81. mínútu en nær komst England ekki og lauk leiknum með 3-2 sigri Belgíu.

Var þetta fyrsti sigur Belgíu sem er nú með þrjú stig í riðli 3 í A-deild. England er með sjö stig á meðan Spánn er á toppnum eftir 7-1 sigur í Portúgal í kvöld. Portúgal er með fjögur stig í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×