Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sakað stjórnarandstöðuna um málþóf vegna þessa. Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar segir augljóst að um málþóf sé að ræða.
„Þau voru náttúrulega að tala í sex klukkutíma í gær um málefni sem tengist aðgerðum gagnvart Grindvíkingum sem er algjörlega fáheyrt, það hefur alltaf verið samstaða um það í þinginu síðan atburðirnir byrjuðu á Reykjanesskaga að þessi mál væru í forgangi.“
Sigmar segir alla sammála um málið en þrátt fyrir það hafi stjórnarandstaðan rætt það í sex klukkustundir í gær. „Og það var ekki fyrr en forseti þingsins sendi bréf til þess að spyrjast fyrir um það hvort það væri ekki hægt að klára málið fyrir páska að það fór eitthvað að þynnast í mælendaskránni en svo bara lengdist hún í næsta máli á eftir.“
Mikilvægt að talað sé um málin
Vilhjálmur Árnason varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafnar ásökunum stjórnarflokkanna og segir stjórnarandstöðuna frekar hafa greitt fyrir málum ef eitthvað er. „Það er ekki um neitt málþóf að ræða þar sem það er nú bara hluti af þingmönnunum sem hefur tekið þátt í umræðunni.“
Hann segir mikilvægt að ríkisstjórnarflokkarnir átti sig á um hvað sé verið að ræða. Það séu orkumál, menntamál og mál Grindavíkur. Vilhjálmur segir stjórnarflokkana ekki hafa veitt stjórnarandstöðunni mikil tækifæri til að ræða það mál.
„Og hafa ekki komið með neitt plan í því. Þetta eru nú bara tvö stærstu málin í síðustu kosningum, orkumál og menntamál. Það er skrítið ef stjórnarflokkarnir eru hræddir við umræðu í því þegar þingið er að fara að fjalla um þessi mikilvægu mál.“