Fótbolti

Karó­lína næstmarkahæst í Þjóðadeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leikinn á Þróttaravelli í gær.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leikinn á Þróttaravelli í gær. vísir/anton

Aðeins tveir leikmenn hafa skorað fleiri mörk en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í Þjóðadeildinni í fótbolta.

Karólína skoraði þrennu þegar Ísland gerði 3-3 jafntefli við Sviss í fjórða leik sínum í riðli 2 í gær. Ísland er með þrjú stig í 3. sæti riðilsins. 

Íslenska liðið lenti tvisvar sinnum tveimur mörkum undir í leiknum gegn Sviss en náði að bjarga stigi, aðallega fyrir tilstuðlan Karólínu. 

Fyrsta markið skoraði hún með skoti beint úr aukaspyrnu, annað markið með skoti úr vítateignum eftir sendingu Sveindísar Jane Jónsdóttur og það þriðja með kollspyrnu eftir langt innkast Sveindísar og skalla Ingibjargar Sigurðardóttur.

Karólína skoraði einnig í 3-2 tapi Íslands fyrir Frakklandi í febrúar, með skoti beint úr aukaspyrnu. Hún hefur því skorað fjögur af fimm mörkum Íslendinga í Þjóðadeildinni.

Raunar hafa aðeins tveir leikmenn skorað fleiri mörk í Þjóðadeildinni í ár en Karólína. Það eru Amy Thompson frá Lúxemborg og Tamara Moráková frá Slóvakíu en þær hafa báðar skorað fimm mörk.

Þrennan í gær var fyrsta þrenna Karólínu fyrir landsliðið og jafnframt fyrsta þrenna landsliðskonu í fimm ár, eða síðan Dagný Brynjarsdóttir skoraði þrjú mörk í 9-0 sigri Íslands á Lettlandi í september 2020.

Karólína skoraði einmitt sitt fyrsta landsliðsmark í leiknum gegn Lettum. Mörkin hennar fyrir landsliðið eru nú orðin fjórtán talsins, í 51 leik.


Tengdar fréttir

„Þarf alltaf að hugsa um það versta sem getur gerst“

„Mjög svekkjandi, eigum ekki að vera fá á okkur þrjú mörk, sérstaklega á móti þessu liði. Mikilvægt að við komum til baka og sterkt af liðinu,“ sagði fyrirliðinn Ingibjörg Sigurðardóttir eftir 3-3 jafntefli Íslands og Sviss í Þjóðadeild kvenna í fótbolta.

„Ég hefði tekið þrjú stig í staðinn“

„Ég hefði tekið þrjú stig í staðinn. Það er hrikalega svekkjandi að fá aðeins tvö stig úr þessum tveimur leikjum“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eftir að hafa sett þrennu fyrir Ísland í 3-3 jafntefli gegn Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×