Enski boltinn

Mark­vörðurinn skoraði með hjólhestaspyrnu á síðustu stundu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Billy Johnson fagnaði markinu sínu líka mjög vel eins og sjá má hér.
Billy Johnson fagnaði markinu sínu líka mjög vel eins og sjá má hér. @nonleaguewonders

Billy Johnson var stjarna Leiston fótboltaliðsins í vikunni þegar hann skoraði magnað jöfnunarmark fyrir lið sitt og það í bikarúrslitaleik.

Leiston liðið var undir í leiknum og leiktíminn var að renna út. Liðið fékk þá hornspyrnu og markvörður liðsins, Billy Johnson, tók þá ákvörðun að fara úr markinu og hlaupa fram í horn.

Þarna var komið fram á fjórðu mínútu í uppbótatíma.

Það er ekki að spyrja að því. Hornspyrnan fór beint á Johnson. Hann reyndi þó ekki að skalla boltann heldur henti beint í hjólhestaspyrnu.

Johnson náði frábærri spyrnu í jörðina og í markið, algjörlega óverjandi fyrir kollega hans í marki mótherjanna.

Markið tryggði liði hans 2-2 jafntefli við Felixstowe & Walton og vítaspyrnukeppni en þetta var bikarúrslitaleikur utandeildaliða í Englandi.

Felixstowe & Walton hafði hins vegar betur 4-3 í vítakeppninni og tryggði sér bikarinn.

Umræddur Billy Johnson var kannski of hátt uppi eftir markið því hann varði ekki eina spyrnu í vítakeppninni. Liðsfélagar hans klikkuðu aftur á móti tveimur og liðið missti af bikarnum.

Markvörðurinn skotvissi tapaði kannski leiknum en hann stal fyrirsögnunum. Hér fyrir neðan má sjá markið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×