Leiston liðið var undir í leiknum og leiktíminn var að renna út. Liðið fékk þá hornspyrnu og markvörður liðsins, Billy Johnson, tók þá ákvörðun að fara úr markinu og hlaupa fram í horn.
Þarna var komið fram á fjórðu mínútu í uppbótatíma.
Það er ekki að spyrja að því. Hornspyrnan fór beint á Johnson. Hann reyndi þó ekki að skalla boltann heldur henti beint í hjólhestaspyrnu.
Johnson náði frábærri spyrnu í jörðina og í markið, algjörlega óverjandi fyrir kollega hans í marki mótherjanna.
Markið tryggði liði hans 2-2 jafntefli við Felixstowe & Walton og vítaspyrnukeppni en þetta var bikarúrslitaleikur utandeildaliða í Englandi.
Felixstowe & Walton hafði hins vegar betur 4-3 í vítakeppninni og tryggði sér bikarinn.
Umræddur Billy Johnson var kannski of hátt uppi eftir markið því hann varði ekki eina spyrnu í vítakeppninni. Liðsfélagar hans klikkuðu aftur á móti tveimur og liðið missti af bikarnum.
Markvörðurinn skotvissi tapaði kannski leiknum en hann stal fyrirsögnunum. Hér fyrir neðan má sjá markið.