Körfubolti

Álft­nesingar fengu frá­bærar fréttir fyrir kvöldið

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Helgi Pálsson verður áfram í lykilhlutverki hjá Álftanesi næstu árin.
Haukur Helgi Pálsson verður áfram í lykilhlutverki hjá Álftanesi næstu árin. vísir/Anton

Landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson hefur ákveðið að halda kyrru fyrir í körfuboltaliði Álftaness og skrifað undir samning til næstu tveggja ára við félagið.

Frá þessu var greint í dag, í aðdraganda þess að Álftanes mætir Njarðvík í IceMar-höllinni þar sem Álftnesingar geta með sigri sópað Njarðvíkingum út í sumarfrí og komið sér í undanúrslit Bónus-deildarinnar.

Haukur, sem verður 33 ára í næsta mánuði, kom til Álftaness fyrir síðustu leiktíð og hefur því verið einn af leiðtogum liðsins fyrstu tvö ár í sögu þess í efstu deild.

Þessi þrautreyndi landsliðsmaður og fyrrverandi atvinnumaður hefur samkvæmt tilkynningu Álftnesinga ekki aðeins skilað miklu inni á vellinum heldur einnig utan hans og fyrir félagið í heild.

„Haukur Helgi er frábær leiðtogi á vellinum og fyrir okkur sem stöndum að klúbbnum á Álftanesi er það afar ánægjulegt að hann spili áfram fyrir okkur. Ekki bara er það vegna stórkostlegra hæfileika hans inn á vellinum heldur líka þátttaka hans í að byggja upp þennan unga klúbb,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness.

Sjálfur er Haukur hæstánægður með sína ákvörðun: „Ég er hrikalega sáttur með þessa framlengingu og að ég geti haldið áfram að spila fyrir þennan frábæra klúbb sem og fengið að taka þátt í uppbyggingu félagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×