Fótbolti

Fékk dauðan grís í verð­laun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heine Åsen Larsen skoraði þrennu í leiknum og fékk einn dauðan grís í verðlaun.
Heine Åsen Larsen skoraði þrennu í leiknum og fékk einn dauðan grís í verðlaun. NRK Sport

Norska bikarkeppnin í fótbolta var í fullum gangi um helgina en sérstaka athygli vakti leikur milli nágrannaliðanna Varhaug og Bryne.

Bryne er í norsku úrvalsdeildinni en Varhaug er í norsku E-deildinni eða fjórum deildum neðar.

Heimaliðið er frá sveitaþorpinu Varhaug og þá var ekki aðeins sæti í annarri umferð bikarkeppninnar í boði í þessum leik. Heimamenn buðu einnig upp á dauðan grís í verðlaun fyrir mann leiksins.

„Við komust að þeirri niðurstöðu og við þyrftum að gefa aðeins meira í þetta en borgastrákarnir frá Bryne,“ sagði Sigrid Lode Knutsen, framkvæmdastjóri Varhaug.

Forráðamenn Varhaug vildu leggja ofuráherslu á það að þeir væru besta bóndaliðið í héraðinu.

„Alvöru bændur koma frá Varhaug,“ sagði Sigrid.

Bryne vakti talsverða athygli á netmiðlun fyrir að verðlauna leikmenn í leikjum sínum með eggjum. Markvörðurinn, sem var valinn besti maður þessa leiks, virtist ekki allt of ánægður með verðlaunin sem gerði fréttina bara enn betri.

Lars Erik Södal, miðjumaður Bryne, sagði blaðamönnum fyrir leikinn að hann ætlaði að bjóða öllu liðinu í grísagrill heima hjá sér ef hann fengi verðlaunin fyrir að vera maður leiksins. „Allir að koma til mín og smakka á grísnum góða,“ sagði Södal.

Bryne vann bikarleikinn 4-0 og Heine Åsen Larsen skoraði þrennu. Dauði grísinn kom því með honum heim til Bryne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×