Körfubolti

Haiden Palmer kemur aftur til Ís­lands en nú sem þjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haiden Palmer er að koma til Íslands í fjórða sinn en hún hefur verið í tvö tímabil með Snæfelli og eitt tímabil með Haukum.
Haiden Palmer er að koma til Íslands í fjórða sinn en hún hefur verið í tvö tímabil með Snæfelli og eitt tímabil með Haukum. Vísir/Bára

Snæfell hefur ráðið þjálfara fyrir kvennalið sitt en körfuknattleiksdeild Snæfells hefur samið við Haiden Palmer um að taka við sem þjálfari kvennaliðs félagsins fyrir næstu leiktíð.

Snæfell er að endurveikja meistaraflokk kvenna hjá félaginu en Snæfell var ekki með kvennalið i vetur eftir að hafa dregið lið sitt úr keppni í Bónus deild kvenna.

Haiden Palmer er að koma til Íslands í fjórða sinn á ferlinum en hún hefur bæði spilað með Snæfelli og Haukum hér á landi.

Snæfellingar muna vel eftir því þegar hún fór fyrir Snæfellsliðinu sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari vorið 2016. Hún lék einnig með Snæfelli 2021-22 og varð bikarmeistari með Haukum á 2021-2022 tímabilinu.

Í 54 leikjum í efstu deild á Íslandi var Palmer með 20,5 stig, 7,5 fráköst og 7,0 stoðsendingar að meðaltali en hrífandi karakter og mikil leiðtogahæfileikar skiluðu liðum hennar einnig miklu.

Á miðlum Snæfells kemur fram að hún komi inn í starfið með mikla reynslu og þekkingu á íslenskum körfubolta auk sterkrar tengingar við samfélagið hér í Stykkishólmi.

Haiden hefur þjálfað við Gonzaga háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hún lék einnig í háskólaboltanum á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×