Erlent

Loftvarnarsírenur óma á ný eftir skamm­vinnt „vopna­hlé“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Víða um landið fóru páskamessur fram utan kirkju vegna linnulausra loft- og stórskotaliðsárása.
Víða um landið fóru páskamessur fram utan kirkju vegna linnulausra loft- og stórskotaliðsárása. AP/Jevgeníj Maloletka

Loftvarnarsírenur ómuðu um Kænugarð og víða í austurhluta Úkraínu snemma í morgun eftir að „páskavopnahlé“ Pútíns Rússlandsforseta lauk formlega.

Ásakanir um rof á vopnahléinu hafa gengið á víxl leiðtoganna á milli og Selenskí lýsti yfirlýsingum Pútíns sem tilraun til að bæta ímynd Rússlandshers án þess að gera í raun og veru hlé á landvinningatilraunum.

Yfirvöld bæði í Kænugarði og Washington hafa lagt til að vopnahléið verði framlengt um þrjátíu daga eða að minnsta kosti að hlé verði gert á loftárásum um það tímabil. Pútín og talsmenn hans hafa þó ekki gefið til kynna að það standi til en vopnahléinu lauk formlega á miðnætti á Moskvutíma.

„Engar aðrar skipanir voru gefnar,“ var svar Dmítrí Peskovs talsmanns rússneskra yfirvalda aðspurðs.

Guardian og Reuters greina frá því að víða í Austur-Úkraínu hefðu loftvarnarsírenurnar hafið söng sinn fáeinum mínútum eftir miðnætti.

„Við brýnum fyrir íbúum að gera sér tafarlaust leið til næsta sprengjubyrgis og halda sér þar uns hættan er yfirstaðin,“ skrifuðu hermálayfirvöld í Kænugarði í færslu á samfélagsmiðlum þegar 41 mínúta var gengin í fimm í nótt á staðartíma.

Sprengjur dundu á hafnarborginni Mykolaív í morgun að sögn Oleksandrs Senkevítsj borgarstjóra og Serhíj Lysak héraðsstjóri sagði á samfélagsmiðlum að Rússar hefðu gert flygildaárásir á Dnípropetrovsk-hérað. Hann sagði heimili hafa orðið fyrir tjóni og að eldur hafi kviknað á veitingastað en að engan hafi sakað.

Loftvarnarsírenurnar þögðu þunnu hljóði páskadaginn sjálfan en hátt í þrjú þúsund „vopnahlésbrot“ voru skráð af úkraínskum hernaðaryfirvöldum og stórskotalið gerðu árásir víða á víglínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×