Uppgjörið: Keflavík - Njarðvík 73-76 | Njarðvíkur-sigur í spennutrylli Siggeir Ævarsson skrifar 23. apríl 2025 19:50 Hulda María Agnarsdóttir og félagar í Njarðvík eru að spila vel. Vísir/Ernir Keflavík tók á móti Njarðvík í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar kvenna í kvöld en Keflavík hafði harma að hefna eftir að hafa tapað í Njarðvík í síðasta leik. Heimakonur í Keflavík hófu leikinn af miklum krafti en krafturinn var ekki alltaf að skila þeim körfum heldur þvert á móti voru þær að brenna af góðum færum meðan Njarðvíkingar voru yfirvegaðir gegn stífri pressu Keflvíkinga og leiddu eftir fyrsta leikhluta 21-27. Keflvíkingar héldu áfram að spila fast og af miklum ákafa og það fór að loks að skila þeim árangri eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Leikurinn var afar fast leikinn og dómararnir voru ekkert að stressa sig of mikið á því að blása í flauturnar sem hentaði Keflvíkingum sennilega ögn betur í baráttu sinni við hávaxið lið Njarðvíkur. Síðasta karfa hálfleiksins var þristur frá Jasmine Dickey sem þýddi að aðeins munaði einu stigi á liðunum í hálfleik, staðan 44-45. Harkan hélt áfram í seinni hálfleik en stíf pressuvörn Keflvíkinga útheimti gríðarlega orku og ekki hjálpaði til hvað þær þurftu að djöflast mikið í miðherjum Njarðvíkur en Jasmine Dickey og Sara Rún Hinriksdóttir voru báðar komnar með fjórar villur áður en þriðji leikhluti var á enda. Njarðvík leiddi með fimm stigum á þeim tímapunkti, 54-59. Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að taka sigurinn í kvöld en náðu aldrei að brúa bilið fullkomlega. Munaði þar eflaust töluvert um að þær Sara Rún Hinriksdóttir og Jasmine Dickey gátu ekki beitt sér af fullum krafti í vörninni en þær voru báðar á fjórum villum allan fjórða leikhlutann. Lokakaflinn var gríðarlega spennandi en svo fór að Njarðvíkingar lönduðu þriggja stiga sigri og eru komnar í 2-0 í einvíginu. Tölfræði leiksins Njarðvíkingar töpuðu 24 boltum í kvöld, tvöfalt fleiri en Keflvíkingar. Það á ekki einhvern veginn ekki að ganga upp að lið tapi svona miklu fleiri boltum en andstæðingurinn en vinni samt en það gerðist nú engu að síður í kvöld. Þá stingur það sérstaklega í augun að Brittany Dinkins tapaði tíu boltum í kvöld. Stjörnur og skúrkar Jasmine Dickey reyndi hvað hún gat til að draga Keflvíkinga að landi í kvöld, 26 stig og 15 fráköst. Þar af fimm sóknarfráköst og fjórir stolnir boltar í ofan álag. Sara Rún Hinriksdóttir skilaði 18 stigum í hús en Julia Bogumila Niemojewska hefur átt betri kvöld. Eitt stig og tvær stoðsendingar þar á bæ. Hjá Njarðvík voru það turnarnir tveir, Paulina Hersler og Emilie Hesseldal, sem létu mest að sér kveða í sókninni. Hersler skilaði 21 stigi og Hesseldal tólf stigum og 16 fráköstum en hún endaði með 30 framlagspunkta. Brittany Dinkins var ekki góð framan af leik, tapaði mörgum boltum og skoraði lítið en tók góða rispu undir lokin þegar á reyndi. Skammartvenna frá henni í kvöld, 16 stig og tíu tapaðir boltar. Níu fráköst líka svo að hún var einu frákasti frá þrefaldri tvennu. Dómararnir Þetta var grófur leikur og ansi oft sem þeir Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson og Jón Þór Eyþórsson ákváðu að leyfa leiknum frekar að fljóta heldur en að dæma. Sem hefur sína kosti og galla. Njarðvíkingum fannst á sig halla í fyrri hálfleik og Keflvíkingum í þeim seinni en aðeins voru dæmdar þrjár villur á Njarðvíkinga allan seinni hálfleikinn. Staðreynd málsins er þó sú að Njarðvík er með tvo mjög hávaxna leikmenn sem Keflvíkingar eiga mjög erfitt með að stöðva án þess að beita bellibrögðum. Þrjár villur er kannski í það minnsta en þegar lið leikur fast á það til að gerast að villur tínast til. Stemming og umgjörð Fullt hús í Blue-höllinni í kvöld og mikil læti. Njarðvíkingar fjölmenntu í stúkuna og létu vel í sér heyra. Alvöru stemming í Keflavík í kvöld. Viðtöl Bónus-deild kvenna Keflavík ÍF UMF Njarðvík
Keflavík tók á móti Njarðvík í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar kvenna í kvöld en Keflavík hafði harma að hefna eftir að hafa tapað í Njarðvík í síðasta leik. Heimakonur í Keflavík hófu leikinn af miklum krafti en krafturinn var ekki alltaf að skila þeim körfum heldur þvert á móti voru þær að brenna af góðum færum meðan Njarðvíkingar voru yfirvegaðir gegn stífri pressu Keflvíkinga og leiddu eftir fyrsta leikhluta 21-27. Keflvíkingar héldu áfram að spila fast og af miklum ákafa og það fór að loks að skila þeim árangri eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Leikurinn var afar fast leikinn og dómararnir voru ekkert að stressa sig of mikið á því að blása í flauturnar sem hentaði Keflvíkingum sennilega ögn betur í baráttu sinni við hávaxið lið Njarðvíkur. Síðasta karfa hálfleiksins var þristur frá Jasmine Dickey sem þýddi að aðeins munaði einu stigi á liðunum í hálfleik, staðan 44-45. Harkan hélt áfram í seinni hálfleik en stíf pressuvörn Keflvíkinga útheimti gríðarlega orku og ekki hjálpaði til hvað þær þurftu að djöflast mikið í miðherjum Njarðvíkur en Jasmine Dickey og Sara Rún Hinriksdóttir voru báðar komnar með fjórar villur áður en þriðji leikhluti var á enda. Njarðvík leiddi með fimm stigum á þeim tímapunkti, 54-59. Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að taka sigurinn í kvöld en náðu aldrei að brúa bilið fullkomlega. Munaði þar eflaust töluvert um að þær Sara Rún Hinriksdóttir og Jasmine Dickey gátu ekki beitt sér af fullum krafti í vörninni en þær voru báðar á fjórum villum allan fjórða leikhlutann. Lokakaflinn var gríðarlega spennandi en svo fór að Njarðvíkingar lönduðu þriggja stiga sigri og eru komnar í 2-0 í einvíginu. Tölfræði leiksins Njarðvíkingar töpuðu 24 boltum í kvöld, tvöfalt fleiri en Keflvíkingar. Það á ekki einhvern veginn ekki að ganga upp að lið tapi svona miklu fleiri boltum en andstæðingurinn en vinni samt en það gerðist nú engu að síður í kvöld. Þá stingur það sérstaklega í augun að Brittany Dinkins tapaði tíu boltum í kvöld. Stjörnur og skúrkar Jasmine Dickey reyndi hvað hún gat til að draga Keflvíkinga að landi í kvöld, 26 stig og 15 fráköst. Þar af fimm sóknarfráköst og fjórir stolnir boltar í ofan álag. Sara Rún Hinriksdóttir skilaði 18 stigum í hús en Julia Bogumila Niemojewska hefur átt betri kvöld. Eitt stig og tvær stoðsendingar þar á bæ. Hjá Njarðvík voru það turnarnir tveir, Paulina Hersler og Emilie Hesseldal, sem létu mest að sér kveða í sókninni. Hersler skilaði 21 stigi og Hesseldal tólf stigum og 16 fráköstum en hún endaði með 30 framlagspunkta. Brittany Dinkins var ekki góð framan af leik, tapaði mörgum boltum og skoraði lítið en tók góða rispu undir lokin þegar á reyndi. Skammartvenna frá henni í kvöld, 16 stig og tíu tapaðir boltar. Níu fráköst líka svo að hún var einu frákasti frá þrefaldri tvennu. Dómararnir Þetta var grófur leikur og ansi oft sem þeir Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson og Jón Þór Eyþórsson ákváðu að leyfa leiknum frekar að fljóta heldur en að dæma. Sem hefur sína kosti og galla. Njarðvíkingum fannst á sig halla í fyrri hálfleik og Keflvíkingum í þeim seinni en aðeins voru dæmdar þrjár villur á Njarðvíkinga allan seinni hálfleikinn. Staðreynd málsins er þó sú að Njarðvík er með tvo mjög hávaxna leikmenn sem Keflvíkingar eiga mjög erfitt með að stöðva án þess að beita bellibrögðum. Þrjár villur er kannski í það minnsta en þegar lið leikur fast á það til að gerast að villur tínast til. Stemming og umgjörð Fullt hús í Blue-höllinni í kvöld og mikil læti. Njarðvíkingar fjölmenntu í stúkuna og létu vel í sér heyra. Alvöru stemming í Keflavík í kvöld. Viðtöl