Upp­gjörið: KR - ÍA 5-0 | Skemmtikraftarnir slógu ekki slöku við

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Júlíus Mar Júlíusson var öryggið uppmálað í öftustu línu og var valinn maður leiksins af stuðningsmönnum KR. Þó aðrir hafi sannarlega gert tilkall til þess.
Júlíus Mar Júlíusson var öryggið uppmálað í öftustu línu og var valinn maður leiksins af stuðningsmönnum KR. Þó aðrir hafi sannarlega gert tilkall til þess. vísir / jón gautur

KR tók á móti ÍA og bauð upp á fimm marka flengingu í fjórðu umferð Bestu deildar karla. 5-0 niðurstaðan í Laugardalnum og KR enn ósigrað. ÍA hefur hins vegar tapað síðustu þremur leikjum. Fyrirliðinn Aron Sigurðarson sneri aftur úr leikbanni, skoraði tvö mörk og var valinn maður leiksins. 

Eins og má nú búast við þegar KR er annars vegar var leikurinn í meira lagi fjörugur, alveg frá fyrstu mínútu.

„Heimamenn“ hér í Laugardalnum byrjuðu hins vegar illa. Tóku langan tíma í að fóta sig og töpuðu boltanum oft á eigin vallarhelmingi, sem leiddi til fjölda tækifæra fyrir ÍA.

Átta mínútur milli marka

Á 24. mínútu tók Aron Sigurðarson hins vegar frábæran sprett og afgreiddi færið í nærhornið með vinstri fæti til að taka forystuna fyrir KR.

Við það lifnaði yfir öllu hjá KR og skömmu síðar, á 32. mínútu skoruðu þeir annað mark. Luke Rae stalst þá inn í þversendingu sem Haukur Andri gaf, brunaði upp völlinn af ógnarhraða og kom boltanum í netið.

Það þriðja stóð aðeins á sér

KR var næstum því búið að bæta þriðja markinu við fyrir hálfleik, en skot Eiðs Gauta small í stönginni og frákastið frá Mathias Præst var varið. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Skagamenn bugaðir

Eftir að hafa séð Skagamenn lenda tveimur mörkum undir bjuggust margir við að liðið myndi mæta dýrvitlaust út í seinni hálfleikinn, svo varð hins vegar ekki.

Skemmtikraftarnir slógu ekki slöku við

KR hélt áfram að spila sinn stórskemmtilega sóknarbolta og uppskar þrjú mörk til viðbótar.

Aron Sigurðarson lagði upp mark fyrir Mathias Præst á 64. mínútu. Sá danski var þar að skora sitt fyrsta mark fyrir KR í deildinni.

Aron var svo sjálfur á ferðinni á 85. mínútu með sitt annað mark í leiknum, eftir stoðsendingu Atla Sigurjónssonar sem var nýkominn inn af varamannabekknum.

Atli átti svo aðra stoðsendingu rétt fyrir leikslok þegar hann lagði fimmta markið upp á Eið Gauta Sæbjörnsson.

Dómarar

Elías Ingi er augljóslega enn með samviskubit eftir að hafa dæmt ÍA úr Evrópubaráttunni á síðasta tímabili. Sleppti Johannes Vall við eitt augljósasta spjald sem sést hefur í efstu deild.

Næstu lyftuferð verður þá ekki eins vandræðaleg.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira