Handbolti

Sel­foss skaust aftur upp í Olís-deildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfoss mun leika í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili.
Selfoss mun leika í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili. Selfoss Handbolti

Selfoss tryggði sér sæti í Olís-deild karla í handbolta með 27-26 sigri gegn Gróttu í fjórða leik liðanna í umspili um laust sæti í efstu deild í kvöld.

Eftir níu marka sigur Gróttu í fyrsta leik höfðu hinir tveir leikir liðanna verið gríðarlega jafnir og á því varð engin breyting í kvöld. Selfyssingar leiddu einvígið 2-1 og Grótta því með bakið upp við vegg.

Jafnræði ríkti með liðunum stærstan hluta leiksins, en Gróttumenn virtust þó skrefinu framar í fyrri hálfleik. Gestirnir leiddu með þremur mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 10-13, Gróttu í vil.

Áfram voru Selfyssingar að elta í seinni hálfleik. Heimamenn hleyptu Gróttu þó ekki of langt frá sér og minnkuðu muninn niður í eitt mark þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Fjórum mínútum síðar komust Selfyssingar svo yfir í stöðunni 25-24 með marki frá Hákoni Garra Gestssyni.

Við tóku æsispennandi lokamínútur. Selfyssingar náðu tveggja marka forskoti, en liðin skiptust svo á að skora. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði mikilvægan bolta fyrir heimamenn þegar tæp mínúta var til leiksloka og Selfyssingar tók leikhlé í stöðunni 26-25.

Hannes Höskuldsson skoraði fyrir Selfoss strax eftir leikhléið, en Jón Ómar Gíslason svaraði fyrir Gróttu þegar enn voru 45 sekúndur eftir á klukkunni. Ekki urðu mörkin hins vegar fleiri og Selfyssingar unnu því að lokum eins marks sigur, 27-26.

Selfoss tekur sér því sæti í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili eftir eins árs veru í Grilldeildinni. Grótta er hins vegar fallin niður um deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×