Erlent

Fjór­tán börn hand­tekin eftir að drengur lést í elds­voða

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Layton Carr lést voveiflega í eldsvoðanum í Gateshead.
Layton Carr lést voveiflega í eldsvoðanum í Gateshead. Getty/GoFundMe

Fjórtán börn hafa verið handtekin í tengslum við andlát fjórtán ára drengs sem brann inni í geymsluhúsnæði í bænum Gateshead í Bretlandi á föstudag.

Eldur braust út í iðnaðarhúsnæði í Bill Quay-hverfi í bænum Gateshead um áttaleytið að staðartíma á föstudagskvöld. Slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins en inni í húsnæðinu fannst lík hins fjórtán ára Layton Carr sem hafði verið leitað í nokkra klukkurtíma fyrir eldsvoðann.

Ellefu drengir og þrjár stúlkur á aldrinum ellefu til fjórtán ára voru í kjölfarið handtekin vegna gruns um manndráp og sitja þau enn í varðhaldi.

Fjöldi fólks hefur skilið blóm eftir við hliðið að lóðinni þar sem Carr lést.Getty

Algengt að börn fari í leyfisleysi inn á lóðina

Húsnæðið sem brann er yfirgefið iðnaðarhúsnæði sem stendur á 15 ekru lóð við ána Tyne og hefur grotnað niður á síðustu árum. 

Breska ríkisútvarpið ræddi við fólk í nágrenninu sem sagði það vera algengt að börn væru í leyfisleysi inni á lóðinni. Jafnframt væru íkveikjur tíðar en eldurinn sem kviknaði á föstudag hafi verið óvenjustór.

Lögreglan í Norðumbralandi segir að rannsókn málsins sé skammt á veg komin og biðlar til almennings að hafa samband sé það með upplýsingar. 

Aðalvarðstjórinn Louisa Jenkins sagði þetta vera „ákaflega sorglegt atvik þar sem drengur lét því miður lífið“. Hún sendi hugheilar kveðjur til Layton-fjölskyldunnar og sagði sérfræðinga lögreglunnar gera allt sem þeir gætu til að styðja við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×