Körfubolti

„Ég fékk að setja þetta ofan í og guðirnir voru með mér í dag“

Siggeir Ævarsson skrifar
Stigahæstu menn vallarins, Hilmar Smári og Lagi Grantsaan, í léttum loftfimleikum
Stigahæstu menn vallarins, Hilmar Smári og Lagi Grantsaan, í léttum loftfimleikum Vísir/Anton Brink

Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur Stjörnumanna í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum Bónus-deildar karla í dramatískum oddaleik gegn Grindavík.

Hilmar mætti í viðtal til Andra Más strax í leikslok þar sem Andri bað hann um að fara aðeins í gegnum allt það sem hefur gengið á. Að komast í 2-0, henda svo frá sér síðasta leik og vera næstum búnir að missa leikinn í kvöld úr höndum sér líka.

„Þetta er bara þrautseigja. Þetta er bara þrautseigja og við trúðum á það sem við vorum að gera. Mér fannst við fara svolítið í sömu sporin og við fórum í í síðasta leik en við settum aðeins fleiri skot og ég náði að setja þetta stóra skot sem þú talaðir um við mig fyrir leik. Það er bara geggjuð tilfinning.“

„Þetta er bara úrslitakeppnin. Tvö núll yfir breytir ekki neinu máli. Maður þarf bara að halda áfram og það er greinilegt. Við endum hérna í fimm leikjum og bara ógeðslega vel gert hjá Grindavík. Þeir eru frábært lið og ógeðslega erfið sería.“

Hilmar setti risastóran þrist undir lokin þar sem DeAndre Kane braut á honum. Andri vildi meina að Kane sé besti einn á einn varnarmaður deildarinnar og Hilmar mótmælti því ekki.

„DeAndre Kane var að dekka mig alla þessa seríu og það var í rauninni heiður að fá að spila á móti DeAndre Kane. Hvílíkur karakter og hvílíkur gaur. En „ég fékk að setja þetta ofan í og guðirnir voru með mér í dag.“

Hilmar fékk að sjá körfuna í endursýningu í viðtalinu og Andri spurði hann út í „skítaglottið“ á honum eins og hann orðaði það.

„Ég er bara glaður, ég er bara tilfinningavera og ógeðslega glaður að sjá boltann fara ofan í. Í rauninni ekkert meira en það, það var ekkert meira á bakvið það. Ég leit til baka, vildi sjá bekkinn, vildi sjá bekkinn fagna.“ - Sagði Hilmar og benti Andra á gleðina á bekknum hjá Stjörnunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×