Viðskipti innlent

Spá sömu­leiðis ó­breyttum stýri­vöxtum

Atli Ísleifsson skrifar
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans. Vísir/Ívar

Greiningardeild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni geri hlé á vaxtalækkunarferlinu og haldi stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi á miðvikudaginn í næstu viku.

Þetta kemur fram á vef Landsbankans. Þar segir að verðbólga hafi aukist umfram væntingar í apríl og verðbólguvæntingar hafi haldist tiltölulega stöðugar. Þá virðist hagkerfið þola vaxtastigið vel, kortavelta hafi aukist sífellt síðustu mánuði og enn sé þó nokkur velta á íbúðamarkaði.

„Peningalegt taumhald losnaði með aukinni verðbólgu í apríl og við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd þyki tímabært að lækka raunstýrivexti enn frekar,“ segir í tilkynningunni.

Greiningardeild Landsbankans tekur þar með undir með Greiningadeild Íslandsbanka sem greindi frá því í gær að hún geri ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum.

Peningastefnunefnd hefur lækkað vexti á síðustu fjórum fundum, eftir rúmt ár af óbreyttu vaxtastigi. Vextirnir standa nú í 7,75 prósent og segir í tilkynningu Landsbankans að ef tekið sé mið af liðinni verðbólgu standi raunstýrivextir í 3,58 prósentum. „Raunstýrivextirnir eru þeir sömu og eftir síðustu vaxtaákvörðun þegar vextir höfðu verið lækkaðir um 0,25 prósentustig. Við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd sjái tilefni til að slaka á taumhaldinu í næstu viku,“ segir á vef Landsbankans.


Tengdar fréttir

Spá óbreyttum stýri­vöxtum

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum við næstu vaxtaákvörðun sem kynnt verður á miðvikudaginn í næstu viku. Talsverðar líkur séu þó einnig á smáu vaxtalækkunarskrefi. Stýrivextirnir standa nú í 7,75 prósentum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×