Viðskipti innlent

Ríf­lega þrjá­tíu þúsund ein­staklingar kaupa hlut ríkisins

Árni Sæberg skrifar
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka. Hann hefur sagt áhuga almennings á útboðinu hafa verið framar björtustu vonum stjórnenda bankans.
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka. Hann hefur sagt áhuga almennings á útboðinu hafa verið framar björtustu vonum stjórnenda bankans. Vísir/Anton Brink

Tilboð í tilboðsbók A í útboði á öllum eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka námu 88,2 milljörðum króna. Þau bárust frá 31.274 einstaklingum.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að áætlað sé að hlutum fyrir 88,2 milljarða króna verði úthlutað til einstaklinganna með fyrirvara um aðlögun og leiðréttingar. Heildarvirði útboðsins á útboðsgenginu [106,56 krónur á hlut] nemi 90,6 milljörðum króna.

Grófur útreikningur blaðamanns sýnir að meðaleinstaklingur, sem skráði sig fyrir hlutum, skráði sig fyrir hlutum fyrir 2,82 milljónir króna. Lágmarksáskrift var 100 þúsund krónur og hámarksáskrift 20 milljónir króna.

Fjárfestar sem gerðu tilboð í tilboðsbækur B og C hafi staðið fyrir eftirstandandi hluta af heildareftirspurn útboðsins, sem hafi numið um 190 milljörðum króna. Tilkynningar um úthlutun á þeim hlutum sem eftir standa, að lokinni úthlutun til tilboðsbókar A, verði sendar þeim aðilum miðvikudagsmorguninn 21. maí 2025, með hliðsjón af þeim úthlutunarreglum sem settar hafa verið fram í lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×