Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon voru öflugir er Álaborg vann sigur á Skjern, 34-28, í úrslitakeppninni í Danmörku.
Álaborg tók völdin strax frá upphafi og var 18-13 yfir í leikhlé. Sigurinn aldrei í hættu hjá deildar- og bikarmeisturunum sem stefna á þrennuna. Þeir stigu stórt skref í átt að sæti í undanúrslitunum.
Janus og Ómar Ingi skoruðu báðir sex mörk úr átta skotum en auk þess gaf Janus þrjár stoðsendingar. Björgvin Páll varði tvo bolta í marki Skjern sem er með tvö stig í riðlinum en Álaborg sex.
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu er SönderjyskE vann sigur á TTH Holstebro, 32-30. SönderjyskE með tvö stig í riðli eitt.
Rúnar Kárason skoraði fimm og Gunnar Steinn Jónsson tvö er Ribe-Esbjerg tapaði með einu marki gegn Nordsjælland, 26-25. Ribe er í góðum málum í umspilinu um fall.
Ólafur Gústafsson var ekki með Kolding sem tapaði með sjö mörkum fyrir Mors-Thy, 31-24, eftir að hafa verið 14-9 yfir í leikhlé. Mikilvægur sigur í baráttunni um fall.
Í Noregi vann Elverum stórsigur á Fyllingen í undanúrslitunum þar í landi. Sigvaldi Guðjónsson gerði fjögur mörk og Þráinn Orri Jónsson eitt.
