Hálfleikur á Englandi

Nú er hálfleikur í leikjunum sex sem standa yfir í ensku knattspyrnunni, en hægt er að fylgjast með gangi mála í leikjunum á Boltavaktinni hér á Vísi. Það vekur athygli að Manchester United er undir á heimavelli sínum gegn Blackburn og Chelsea hefur fengið á sig fyrsta markið á tímabilinu á heimavelli gegn Aston Villa. Það var Luke Moore sem kom Villa yfir á Stamford Bridge á 41. mínútu, en Frank Lampard jafnaði metin rétt áður en flautað var til leikhlés. Morten Gamst Pedersen skoraði mark Blackburn á Old Trafford og Blackburn hefur yfir 1-0 þar í hálfleik. Michael Owen skoraði mark Newcastle sem hefur yfir 1-0 gegn Manchester City á heimavelli sínum St. James´ Park og Hermann Hreiðarsson og félagar í Charlton eru með góða 2-0 forystu gegn WBA á útivelli, þar sem Danny Murphy hefur skorað bæði mörk Lundúnaliðsins. Þá er markalaust hjá Everton og Wigan og sömu sögu er að segja af Lundúnaslag West Ham og Arsenal.