Handbolti

Ís­lendingar gerðu gæfu­muninn í Ís­lendinga­slögum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon kom með beinum hætti að tíu mörkum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon kom með beinum hætti að tíu mörkum í kvöld. Getty/Javier Borrego

Fjórum af sjö leikjum dagsins í efstu deild karla í þýska handboltanum er nú lokið. Íslenskir landsliðsmenn voru atkvæðamiklir.

Viggó Kristjánsson og félagar hans í Erlangen tóku á móti hans gamla liði Leipzig. Fór það svo að gestirnir í Leipzig unnu tveggja marka sigur, lokatölur 23-25

Viggó átti að venju góðan leik í liði Erlangen. Skoraði hann sex mörk ásamt því að gefa eina stoðsendingu. Það dugði ekki til sigurs þar sem Andri Már skoraði einnig sex mörk í liði Leipzig.

Lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar í Leipzig eru nú 12. sæti með 21 stig á meðan Erlangen er í 16. sæti með 12 stig, tveimur frá fallsæti.

Magdeburg marði eins marks sigur þegar Íslendingaliðið sótti lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar heim, lokatölur 31-32.

Ómar Ingi Magnússon var gríðarlega öflugur í liði gestanna með sex mörk og fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf jafnmargar stoðsendingar. Í liði Gummersbach skoraði Teitur Örn Einarsson fjögur mörk ásamt því að gefa tvær stoðsendingar.

Magdeburg er nú með 43 stig í 3. sæti, þremur stigum á eftir toppliðunum Füchse Berlín og Melsungen sem hafa leikið einum leik meira. Gummersbach er í 9. sæti með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×