Ísraelar héldu áfram hörðum árásum á suðurhluta Líbanon í nótt og morgun. Ísraelar létu sprengjum rigna yfir Beirút þar sem talið er að skæruliðar Hizbollah-samtakanna hafist við.
Átökin hófust í fyrradag eftir að skæruliðar Hizbollah-samtakanna tóku í gíslingu tvo ísraelska hermenn, á landamærum Ísraels og Líbanon. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, skipaði í gær her sínum að herða árásir á Líbanon. Ísraelsmenn hafa nú náð að miklu leyti að einangra Líbanon frá umheiminum. Alþjóðaflugvöllurinn í Beirút er enn lokaður eftir lofárásir, öllum höfnum landsins hefur verið lokað og Ísraelsmenn hafa sprengt upp mikið af vegum. Ísraelsher hefur einnig sprengt upp eldsneytistanaka við helstu orkuver borgarinnar.