
Viðskipti innlent
Kaupþingsbréfin hækka í Svíþjóð

Gengi hlutabréfa í Kaupþingi sem skráð eru í Nasdaq OMX-kauphallarsamstæðunni í Stokkhólmi í Svíþjóð hefur hækkað um 1,48 prósent í dag. Þetta er nokkuð í samræmi við þróunina á erlendum hlutabréfamörkuðum sem hafa staðið á grænu eftir þann rauða lit sem einkenndi lækkun víða um heim í gær. FTSE-vísitalan hefur hækkað um 0,11 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 0,79 prósent og CAC-40 hlutabréfavísitalan í Frakklandi um 0,71 prósent. Þá hafa hlutabréf sömuleiðis hækkað almennt á Norðurlöndunum. Mest er hækkunin í Finnlandi upp á 1,74 prósent á sama tíma og lækkun er í norsku kauphöllinni í Ósló upp á 0,39 prósent.