Fjögur þúsund miðar seldust upp á aðeins tuttugu mínútum á minningartónleika um Vilhjálm Vilhjálmsson sem verða haldnir í Laugardalshöll 10. október.
Ákveðið hefur verið að halda aukatónleika 11. október og hefst miðasala á þá föstudaginn 12. september. Landslið söngvara kemur fram á tónleikunum og eru þar á meðal Björgvin Halldórsson, Bubbi Morthens, Diddú, Egill Ólafsson, Laddi, Lay Low, Páll Rósinkranz, Ragnheiður Gröndal og Stefán Hilmarsson. Sérstakir heiðursgestir verða Helena Eyjólfsdóttir og Þorvaldur Halldórsson. Miðaverð er á bilinu 4.900 krónur til 11.900.