Viðskipti innlent

Gjaldeyrismál 15 ára – nú á vefnum

Yngvi Harðarson Stofnandi Gjaldeyrismála, fréttarits um gjaldeyrismál. Ritið kemur út vikulega og er skrifað af gjaldeyrissérfræðingum Aska Capital. markaðurinn/VALLI
Yngvi Harðarson Stofnandi Gjaldeyrismála, fréttarits um gjaldeyrismál. Ritið kemur út vikulega og er skrifað af gjaldeyrissérfræðingum Aska Capital. markaðurinn/VALLI

Upphaflega markmiðið með útgáfu Gjaldeyrismála var að bæta upplýsingaflæðið varðandi fjármálamarkaðinn og sérstaklega gjaldeyrismarkaðinn í ljósi þess að miklar breytingar voru að verða á markaðsaðstæðum vegna samningsins um evrópska efnahagssvæðið og aukins frjálsræðis í gjaldeyris­málum. Mér fannst vera þörf fyrir að koma fram með vandað upplýsingaflæði til að markaðs­aðilar gætu mótað sína afstöðu með skynsamlegum hætti,“ segir Yngvi Harðarson, stofnandi og fyrsti ritstjóri Gjaldeyrismála.

Ákveðin tímamót eru í útgáfu Gjaldeyrismála um þessar mundir. Blaðið sem gefið hefur verið út sleitulaust frá 1993 verður frá og með þriðjudeginum 3. júní aðgengilegt á netinu á vefsíðu Aska Capital, www.askar.is. Gjaldeyrismál kemur nú út vikulega og verður sent út í tölvupósti og aðgengilegt á vefnum en þess má geta að allt þar til á síðasta ári var það gefið út daglega. Öll fyrri rit Gjaldeyrismála verða sett á netið og gerð aðgengileg. Slíkt ætti meðal annars að styðja við rannsóknar­vinnu á sviði gjaldeyrismála. Einnig hefur verið ákveðið að breyta útliti blaðsins og verður það nú sent út í HTML-formi í stað Abrocat.

Yngvi segir að efnistök blaðsins hafi verið áþekk allt frá upphafi en þó hafi á undanförnum árum verið lögð aukin áhersla á tæknigreiningu á fjármála- og gjaldeyrismörkuðum. „Við höfum stundum verið gagnrýndir fyrir íhaldssemi í framsetningu en við sjáum nú að hún hefur borgað sig.“ Yngvi segir að helsti markhópur blaðsins hafi allt frá upphafi verið fagaðilar á markaði, stofnanafjárfestar, stærri fyrirtæki og aðrir fagfjárfestar. Allt fram á síðasta ár voru Gjaldeyrismál seld í áskrift en er nú dreift sem „fríblaði“ í takt við tíðar­andann.

Núverandi ritstjóri Gjaldeyrismála er Sigurður Sævar Gunnarsson sem tók við af Yngva Harðarsyni um mitt ár 2007 eftir fjórtán ára setu í ritstjórastóli. Sigurður segir að ritið muni enn um sinn koma út í óbreyttu formi en hugsanlega muni verða lögð aukin áhersla á greiningar þegar fram líða stundir. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×