Skoðun

Nesti og nýir skór þjóðar

Verður Þjóðfundurinn 14. nóvember skráður í sögubækur? Fundurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum og á hann eru fulltrúar þjóðarinnar kallaðir. Ef til vill mun eftirfarandi standa í alfræðiritum framtíðarinnar:

„Þjóðfundurinn 2009 markaði þáttaskil í varnarbaráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði sínu. 1.500 íbúar voru kallaðir til fundarins í Laugardalshöll til að endurskoða gildin eftir hrun efnishyggjunnar og varpa upp framtíðarsýn um samfélag þar sem hamingja almennings og heill náttúru er mælikvarði allra þýðingarmikilla ákvarðana. Þjóðfundurinn varð afl gegn skammsýni og stundarhagsmunum. Máttarstólpar risu, þjóðin sameinaðist um gildin og hætti að veita afslátt á auðlindum sínum. Straumhvörf urðu á Þjóðfundinum 2009 líkt og á Þjóðfundinum 1851 þar sem hin fleygu orð svifu yfir:

„Vér mótmælum allir!" Þverskurður þjóðarinnar á Þjóðfundinum 2009 mótmælti fífldirfsku, aga- og taumleysi og óútreiknanlegri hegðun útvaldra og fékk fólk til að sameinast um ný gildi með bjartsýni og kraft í farteskinu. Þjóðfundurinn markaði endalok tíðaranda græðginnar og upphaf nýrrar samábyrgðar."

Ofangreind orð eru tilgáta um mögulega framtíð - sem verður ef við viljum. Allt er mögulegt, ekkert útilokað, enginn veit. Þjóðfundurinn er merkileg tilraun sem getur aðeins heppnast ef þeir sem boðaðir hafa verið mæta. 1.500 einstaklingar hvaðanæva af landinu fengu boð á fundinn, ef til vill má segja að þeir hafi verið kallaðir til að búa þjóð sína undir ferðalag með nesti og nýja skó. Búa hana til sóknar og nýsköpunar.

Það er hollt að spyrja sjálfa sig: „Hvaða gildi vil ég efla með sjálfum mér á næstunni?" Ef til vill sjálfsaga, vináttu, jákvæðni og hæglæti? En hvaða gildi þarf þjóðin á að halda á næstunni? Ef til vill gagnsæi, sjálfbærni, samvinnu og bjartsýni? Vandasamt er að finna svörin nema í samræðum við aðra og rökræðum þar sem markmiðið er að finna heillavænlega niðurstöðu sem er ósnert af skammsýni. Finnum svörin af eigin mætti og leggjum drög að næstu framtíð!

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×