Skoðun

Röng um­ræða um fjöl­miðla

Gunnar Hersveinn skrifar um fjölmiðla

Íslendingar glata sorglega oft tækifærum til að rökræða málin. Ástæðan er sú að boðberar válegra tíðinda eru skotnir um leið og þeir birtast. Íslenskir fjölmiðlar eru í kreppu en ef einhver gerir athugasemdir við vinnubrögð þeirra er sá hinn sami annaðhvort hunsaður eða gerður tortryggilegur. Það er líkt og hugrekki þurfi til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á Íslandi.

Nýlega lýsti Norræna blaðamannasambandið yfir áhyggjum sínum af stöðu fjölmiðla á Íslandi enda ástæða til. Rekstur fjölmiðla er vandasamur og margir efast um markmið eigenda þeirra og hugsjónir ritstjóra. Síðast en ekki síst hafa margir af reyndustu blaða- og fréttamönnum landsins misst vinnuna. Blaða- og fréttamenn sem geta veitt yfirvöldum aðhald, spurt gagnrýnna spurninga og skrifað eða flutt viðamiklar fréttaskýringar til að upplýsa almenning standa nú margir utan fjölmiðla.

Í íslenskri umræðu er oft hrópað af krafti á gagnrýnendur og gefið í skyn að annarlegir hagsmunir liggi að baki og að gagnrýni þeirra sé af persónulegum ástæðum. Þeir sem verja ríkjandi ástand slá gjarnan andstæðinga sína undir beltisstað. Ályktun Norræna blaðamannasambandsins var frétt hér á landi en umræðan fór um víðan völl og skotið var í allar áttir í stað þess að miða í mark. Tilraun var meðal annars gerð til að sverta Blaðamannafélag Íslands og strax var grafið undan þeim sem þurfa að fjalla um viðkvæmt málið.

Kennslubókardæmi um ofangreint er fjölmiðlapistill Viðskiptablaðsins 3. desember 2009. Þar er Norræna blaðamannasambandið gert ótrúverðugt, skotið er á núverandi og fyrrverandi formenn Blaðamannafélags Íslands og annar ritstjóri Morgunblaðsins skjallaður. Nýir eldar eru kveiktir í stað þess að taka þátt í björgunarstarfinu.

Umræðuaðferðin sem pistlahöfundur Viðskiptablaðsins beitir er iðulega notuð af þeim sem vilja ekki fjalla um kjarna málsins. Hvetjum íslenska blaða- og fréttamenn til að taka þátt í umræðunni og til að skapa aðra rökræðuhefð og leyfum ekki einstaka álitsgjöfum að einoka sviðið.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×