Hulda Dóra Styrmisdóttir skrifstofustjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, hefur tekið við sem stjórnarformaður Nýja Kaupþings.
Hulda Dóra, sem jafnframt er eldri dóttir Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, tekur við af Gunnari Erni Kristjánssyni, sem sagði af sér stjórnarformennsku í bankanum á miðvikudag eftir aðeins nokkurra daga setu.
Hulda hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka á árunum 2001-2004. Þá hefur hún sinnt stjórnendaráðgjöf og kennslu.
Kaupþing er fyrsti bankinn hér á landi sem hefur einungis konur í stjórn, að því er segir á vefsíðu Nýja Kaupþings. Þær sem skipa stjórn bankans auk Huldu Dóru eru, Auður Finnbogadóttir, Erna Bjarnadóttir, Helga Jónsdóttir og Drífa Sigfúsdóttir.