Skoðun

Vandi ís­lenskra fjöl­miðla

Gunnar Hersveinn skrifar

Hlutverk fjölmiðlafólks er þýðingarmikið um þessar mundir en hlutskipti þeirra er dapurlegt. Fjölmargir reyndir blaðamenn með bein í nefinu standa nú utan fjölmiðla - þeim hefur verið sagt upp störfum. Höfundar greina og pistla geta ekki heldur lengur selt skrif sín. Gagnrýnin hugsun er á undanhaldi í íslenskum fjölmiðlum en léttmeti sem laðar að sér auglýsingar á greiðan aðgang.

Blaðamenn og -konur hafa aðgang að valdafólki og viðskiptalífi. Þau geta í krafti fjölmiðils spurt spurninga og krafist svara. Þau geta viðað að sér efni og samið mikilvægar fréttaskýringar til að varpa ljósi á stöðuna. Skjólstæðingar þeirra er almenningur og aðeins almenningur. Verk sem þeim gefst kostur á að vinna vel - býr yfir samfélagslegri ábyrgð og hefur jákvæðar afleiðingar.

Nú stendur yfir óvissutími vegna ICESAVE og brátt verður skýrsla rannsóknarnefndar Alþings birt en á sama tíma eru fjölmiðlar vanbúnir til að takast á við verkefnið sem liggur fyrir. Sögulegir atburðir eiga sér stað sem skilja á milli feigs og ófeigs, og vönduð miðlun til þjóðarinnar getur ráðið úrslitum um framhaldið. En hvað gerist þá? Fréttamenn missa vinnuna og þeir sem eftir eru hafa æ sjaldnar tíma til að vanda sig sökum álags.

Hver og einn blaðamaður reynir að standa sig í fréttamiðlun en það er vissulega áhyggjuefni þegar þeir hafa ekki lengur stuðning sér reyndari og ekki heldur tíma til að klára málin. Það er nauðsynlegt að kryfja málin, leita í margar heimildir, efast og loks að semja vandaðar fréttaskýringar - en til hverra getur fréttastjórinn leitað þegar svo margir afburðagóðir fréttamenn standa utandyra?

Kröfuharðir lesendur, hlustendur og áhorfendur fjölmiðla verða að láta til sín heyra og mótmæla þessari afleitu stöðu á svo mikilvægum tímum. Ef til vill hefur aldrei verið meiri þörf á hörðu, gagnrýnu, reyndu og úthaldsgóðu fjölmiðlafólki til að glíma við það efni sem berst á fjölmiðla þessi misserin.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×