Skoðun

Samfélag fyrir alla

Hvatningarverðlaun ÖBÍ verða veitt í fjórða sinn 3. desember nk. Þá verðlaunar Öryrkjabandalag Íslands þá sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Megintilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu helsta baráttumáli Öryrkjabandalags Íslands: einu samfélagi fyrir alla.

Það er grundvallaratriði að fatlað fólk standi að því að veita verðlaun sem þessi. Það er okkar, sem á einhvern hátt erum fötluð, að gefa tóninn, leggja línurnar og vera í fararbroddi við að meta það sem vel er gert í okkar málaflokki. Verðlaunin eru í senn hrós fyrir vel unnin störf og hvatning til áframhaldandi góðra verka.

Til þess að gefa sem flestum færi á því að taka þátt í að velja verðlaunahafana leitar undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ til allra sem þekkja til og áhuga hafa á þessum vettvangi og hvetur þá til að stinga upp á verðugum fulltrúum.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: flokki einstaklinga, flokki fyrirtækis/stofnunar og flokki umfjöllunar/kynningar. Þekkir þú einhvern sem þér finnst hafa staðið sig sérstaklega vel þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks? Manstu eftir einhverju fyrirtæki eða stofnun þar sem aðgengismál eru til fyrirmyndar eða starfsmannastefnan tekur mið af því að fólk er margbreytilegt? Varð einhver bók, tímaritsgrein eða kvikmynd til þess að þú öðlaðist betri skilning og þekkingu á málefnum fatlaðs fólks? Þessi atriði og ótal mörg önnur gætu legið tilnefningum til grundvallar.

Allar upplýsingar um hvernig skila skal inn tilnefningum má finna á vef Öryrkjabandalagsins, www.obi.is, en skilafrestur er til 15. september. Taktu þátt í því með okkur að veita þeim viðurkenningu sem lagt hafa sitt af mörkum til þess að hér verði eitt samfélag fyrir alla.






Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×