Skoðun

Framtíð orkugeirans

Hörður Arnarson skrifar

Landsvirkjun hefur undanfarið unnið að heildstæðri stefnumótun um starfsemi fyrirtækisins. Markmiðið er að orkuauðlindir landsins verði nýttar með sjálfbærum og arðbærum hætti í sátt við íslenskt samfélag. Fjölmargar leiðir eru mögulegar til þess að ná því markmiði. Á opnum ársfundi fyrirtækisins 15. apríl sl. var fjallað um þessa ólíku möguleika. Þar var gerð grein fyrir því hvernig fyrirtækið geti til dæmis aukið raforkuvinnslu sína umtalsvert í viðráðanlegum skrefum. Tekið skal fram að nýir virkjunarkostir ráðast algerlega af niðurstöðu rammaáætlunar stjórnvalda um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.



Lögð hefur verið áhersla á að stefnumótun Landsvirkjunar fari fram fyrir opnum tjöldum og hefur almenningi og hagsmunaaðilum verið gefinn kostur á að taka þátt í vinnunni, sem er hvergi nærri lokið. Einn af mikilvægum þáttum stefnumótunarinnar er að greina áhrif mismunandi möguleika á efnahagslíf landsins.



Áfanga í slíkri greiningu hefur nú verið náð með skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins GAMMA, sem unnin var að beiðni Landsvirkjunar, um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035. Var hún kynnt opinberlega nú í vikunni og er þar varpað upp fjórum mismunandi sviðsmyndum. Greind eru bæði áhrif þess að raforkuvinnsla verði aukin verulega og að ekki verði af frekari virkjunarframkvæmdum. Þá eru greind áhrif þess að raforkuverð fari hækkandi eins og gerst hefur erlendis og eins af því að ekki verði af verðhækkunum. Þá eru einnig greind efnahagsleg áhrif þess að lagður verði sæstrengur til Evrópu.



Í stuttu máli er niðurstaða skýrsluhöfunda sú að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar geti haft umtalsverð efnahagsleg áhrif hér á landi. Sá kostur, að auka raforkuframleiðslu verulega, felur í sér umtalsverða aukningu á arðgreiðslugetu fyrirtækisins sem þó kemur ekki inn í hagkerfið fyrr en að tíu árum liðnum. Sá kostur að fara ekki í frekari framkvæmdir, en sækja þær verðhækkanir sem þegar hafa orðið í Evrópu, felur einnig í sér arðgreiðslugetu þótt minni sé, sem jafnframt kemur fyrr inn í hagkerfið.

Hækkað verð til stórnotenda eitt og sér hefur því einnig í för með sér að raforkuframleiðsla gæti orðið afar arðbær í framtíðinni. Hver sem endanleg niðurstaða verður er nauðsynlegt að fram fari almenn umræða um þessa ólíku möguleika og áhrif þeirra á Ísland.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×