Skoðun

Friðarmenning í Noregi

Gunnar Hersveinn skrifar

Viðbrögð Norðmanna gegn hryðjuverkunum í Ósló og fjöldamorðunum í Útey eru lofsverð, því þjóðin heitir sér því að leggja áherslu á kærleika og meira lýðræði. Það er ríkur þáttur í þeirri friðarmenningu sem Norðmenn hafa boðað.



Hugtakið friður er viðamikið og felur í sér tilfinningar og dyggðir. Friður er mennska sem borgarar eiga að rækta með sér. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða skyndiákvörðun heldur margskonar starfsemi sem lýtur að sama markmiði: að rækta líf, særa engan og virða aðra.



Viðbrögð Norðmanna við ódæðisverkum á heimavelli skapa einhug og vekja þeim löngun til að efla kærleikann. Þau ætla að nota þjáninguna, ekki til að hefna sín, heldur til að vinna bug á uppsprettu og afleiðingum haturs og heimsku. Það er aðdáunarvert.



Friður er meginregla en ekki draumur, hann er veruleiki sem er forsenda betra lífs á jörðinni. Líkt og hægt er að ala upp hermenn og þjálfa þá til hernaðar er unnt að leggja stund á frið með uppeldi og þjálfun og kenna hann í skólum. Það er friðarmenning.



Menntuð stjórnvöld skapa aðstæður til að gera út um deilur og áföll á friðsamlegan hátt í stað þess að velja fjölfarna leið óttans. Verkefnið er að setja sig í spor annarra og markmiðið að skapa samkennd milli ólíkra einstaklinga. Það skapar frið og öryggi íbúa.



Norðmenn senda nú þau skilaboð til heimsins að svarið við illvirkjum sé meira lýðræði, gagnsæi og mannúð, svarið við hatri sé kærleikur. Ótta og illsku er vísað á bug. Þetta er sjaldséð, lofsvert og í anda ungmennanna í Útey sem börðust fyrir friði, jafnrétti og opnu samfélagi fyrir alla.



Það er sama úr hvaða ranni ódæðismenn eða hópar spretta, það er sama hvaða nöfnum þeir eru nefndir, það er sama hvort illvirki er kennt við hægri eða vinstri, austur eða vestur, það eru viðbrögðin sem skipta máli. Friðarmenning brýtur vítahring haturs.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×