Skoðun

"Handvömm“ - Heyr á endemi!

Í grein sem formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., Svanhildur Kaaber, skrifaði í Fréttablaðið 28. september sagði hún það „handvömm" að heiti Ríkisútvarpsins væri ekki að finna í vefsímaskránni ja.is. Þegar heiti Ríkisútvarpsins var slegið inn var niðurstaðan: Ekkert fannst. Nú er búið að lagfæra þetta. Sé leitað undir heiti Ríkisútvarpsins kemur á skjáinn eitt símanúmer og: Ríkisútvarpið ohf. – sjá RÚV! Þetta er auðvitað framför!

Orðabókin segir að handvömm sé glapræði, vanræksla, klaufaskapur eða léleg smíði. Það er afsökunin fyrir því að nafn Ríkisútvarpsins var ekki að finna á ja.is.

En er þetta satt? Er þetta handvömm eða er þetta skýr og einbeittur ásetningur; liður í því að bannfæra heitið Ríkisútvarp eins og stjórnendur Ríkisútvarpsins vinna nú markvisst að.

Eftir þessi skrif var Molaskrifara bent á að í prentaðri símaskrá ársins 2011 er nafn Ríkisútvarpsins heldur ekki að finna. Er það líka handvömm? Þar er bara RÚV. Handvömm, heyr á endemi! Nöfnum er ekki breytt í símaskrá nema um það sé beðið. Ritstjórar símaskrár taka það ekki upp hjá sjálfum sér. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa beðið um að nafn Ríkisútvarpsins væri fjarlægt úr símaskránni. Öðrum kosti hefði það ekki verið gert.

Hér var engin handvömm á ferðinni heldur einbeittur brotavilji stjórnenda sem vilja gera heiti stofnunarinnar, Ríkisútvarpið, útlægt og banna notkun þess. Það hefur enginn gefið þeim leyfi til þess og til þess voru þeir ekki ráðnir. Hvernig væri að ráðherrar sem hafa með Ríkisútvarpið að gera gefi yfirmönnum í Efstaleiti orð í eyra fyrir að misbeita valdi sínu og fyrir atlögu að þessari rúmlega áttræðu stofnun, Ríkisútvarpinu. Þetta fólk var ekki ráðið til að eyðileggja hið góða nafn Ríkisútvarpsins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×