Skoðun

Eygló og óvinurinn

Ingimundur Gíslason skrifar
Fimmtudaginn 20. október sl. birtist grein eftir Eygló Harðardóttur alþingismann undir heitinu „Plan B á verðtrygginguna“. Greinin ber ríkan keim af þeirri óljósu og þokukenndu notkun á orðum og hugtökum sem tröllríður allri umræðu á Íslandi.

Eygló er tíðrætt um skuldara og fjármagnseigendur og rekur svo endahnútinn með áskorun að við (væntanlega við Íslendingar) hættum að koðna frammi fyrir óvininum.

Hver er svo óvinurinn? Við lestur greinarinnar er erfitt að finna svar við þeirri spurningu. Er það húsbóndinn í neðra? Er verðtryggingin sem slík óvinurinn eða svo kallaðir fjármagnseigendur?

Á meðal hugsanlegra fjármagnseigenda er gamla fólkið í landi okkar, gamla fólkið sem á innstæður í lífeyrissjóðum sem allir vilja hrifsa til sín. Innstæður sem það hefur safnað saman á langri ævi og tekist bærilega, þökk sé meðal annars verðtryggingunni. Án hennar hefði það aldrei tekist. Verðtryggingu var komið á vegna þess að Íslendingar búa við gjaldmiðil sem enginn treystir og enginn í framtíð mun taka mark á og allra síst nú eftir hrun. En við skulum endilega kalla þetta fólk fjármagnseigendur. Það hljómar svo vel þegar við mundum vígapennann.

Án verðtryggingar mun enginn fá lán í íslenskum krónum nema með mjög háum vöxtum. Eða þá með skömmtun eins og tíðkaðist fyrr á árum. Þá var lán í banka gjöf í óðaverðbólgunni enda langar biðraðir á hverjum morgni til geta betlað nokkrar krónur. Viljum við svona ástand aftur? Viljum við láta klíkuskap eða flokksskírteini ráða því hverjir fái ókeypis lán?

En svarið við fyrstu spurningunni hér fyrir ofan er þetta: Óvinurinn er handónýt íslensk króna.

Er nú ekki kominn tími til að við hættum að stilla þegnum Íslands upp í meira og minna ímyndaða hópa og egna þeim síðan til átaka? Eða eigum við sem erum að komast eða erum komin á aldur að skunda niður á Austurvöll með skiltin hátt á lofti?

Ellilífeyrisþegar Íslands sameinumst! Og myndum nýtt stjórnmálaafl?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×