Skoðun

Lýsi þeim sem sitja í myrkri

Toshiki Toma skrifar
Um daginn samþykkti Alþingi frumvarp um að veita 24 einstaklingum ríkisborgararétt. Þá fékk hælisleitandi frá Íran, Mehdi Kavyanpoor, að verða Íslendingur. Mehdi hafði dvalið um sjö ár hérlendis en hann sótti um hæli á Íslandi árið 2005. Sem prestur innflytjenda og vinur hans fagna ég þessum úrslitum í máli Mehdi.

En um leið langar mig að minna ykkur á að þetta er ekki niðurstaðan í máli allra þeirra sem hælis leita hér á landi. Það eru fleiri sem eru í samsvarandi limbó-stöðu og bíða lengi eftir því að komast inn í venjulegt samfélag eins og Mehdi hefur nú gert.

Ungur maður sem ég þekki sótti um hæli á Íslandi fyrir tíu árum en hann hefur ekki fengið venjulegt dvalarleyfi en býr engu að síður á Íslandi. Máli hans var synjað, samt getur innanríkisráðuneytið ekki sent hann til heimalandsins vegna sérstakrar ástæðu. Hann býr því á Íslandi með síendurnýjað takmarkað dvalarleyfi en hefur aldrei orðið almennur þegn þjóðfélagsins.

Niðurstaðan í máli Mehdi er góð. En ein ástæða þess var sú að hann fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlunum, þar sem athafnir hans vöktu athygli eins og hungurverkfall og mótmæli á skrifstofu Rauða krossins, enda margir í samfélaginu sem sýndu Mehdi stöðu.

Áðurnefndur maður spurði mig: „Verð ég líka að kveikja í mér til að mál mitt fái einhvern framgang?“ Hann óttist að hann „gleymist“. En mótmæli eins og að reyna sjálfsvíg eða skaða sig alvarlega á ekki að vera skilyrði, að sjálfsögðu, til þess að fá hælisumsókn án tafar.

Mál Mehdi fékk góða niðurstöðu með samþykkt Alþingis, en ekki með ákvörðun Útlendingastofnunar eða innanríkisráðuneytisins en í þeim farvegi átti mál Mehdi að vera. Ég tel þá staðreynd vera gagnrýni löggjafarvalds þjóðarinnar á störf framkvæmdarvaldsins, þ.ám dómsmálayfirvalda, sem skorti vilja til þess að leita réttlætis fyrir hælisumsækjanda sem fyrir vikið þurfti að bíða milli vonar og ótta árum saman. Ég óska eftir því að framkvæmdayfirvaldið sýni það hugrekki að endurskoða vinnubrögðin hjá sér og bæta þau, svo að ljós mannúðar og mannréttinda lýsi öllum hælisleitendum sem sitja í myrkri hérlendis.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×