Bandaríska skíðakonan Lindsey Vonn hefur ákveðið að taka sér hlé frá keppni. Heimsbikarinn á skíðum er í fullum gangi en líklegt er að Vonn verði í fríi að minnsta kosti fram yfir áramót.
Vonn gekk illa á heimsbikarmóti í Frakklandi um helgina og í tilkynningu á Fésbókarsíðu sinni segist Vonn þurfa að safna kröftum áður en hún mæti í hlíðarnar á nýjan leik.
„Eftir að hafa rætt við fjölskyldu mína og fengið ráð frá þjálfurum hef ég ákveðið að taka mér frí frá heimsbikarnum," sagði Vonn. „Síðan ég fékk magasýkingu í síðasta mánuði hefur mig skort orku og styrk. Ég tel að stutt frí frá fjöllunum geti hjálpað mér að endurheimta þann líkamlega styrk sem ég þarf til að keppa á hæsta stigi," sagði skíðakonan.
Ljóst er að Vonn missir af keppni í heimsbikarnum í Are í Svíþjóð um helgina þar sem keppt verður í svigi og risasvigi. Líklegt er talið að hún verði einnig fjarri góðu gamni í Semmering í Austurríki 28.-29. desember.

