Enski boltinn

Leiður að heyra púað á vin sinn: „Getur ekki sagt fólki hvernig því á að líða“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki eru allir stuðningsmenn Liverpool ánægðir með Trent Alexander-Arnold og þá ákvörðun hans að yfirgefa félagið.
Ekki eru allir stuðningsmenn Liverpool ánægðir með Trent Alexander-Arnold og þá ákvörðun hans að yfirgefa félagið. getty/Nick Potts

Andy Robertson fannst miður að heyra suma stuðningsmenn Englandsmeistara Liverpool púa á Trent Alexander-Arnold þegar hann bjó sig undir að koma inn á gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Í síðustu viku greindi Alexander-Arnold frá því að hann myndi yfirgefa Liverpool þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar. Fastlega er búist við því að enski landsliðsmaðurinn gangi í raðir Real Madrid.

Alexander-Arnold byrjaði á bekknum þegar Liverpool tók á móti Arsenal í gær. Þegar 23 mínútur voru eftir af leiknum kom hann inn á sem varamaður fyrir Conor Bradley. Hluti stuðningsmanna Liverpool púaði á Alexander-Arnold þegar hann bjó sig undir að koma inn á.

Robertson sagði að það hefði ekki verið gaman að heyra stuðningsmenn Rauða hersins púa á Alexander-Arnold. 

„En þú getur ekki sagt fólki hvernig því á að líða. Svona líður mér með þetta og ég er ekki að fara að segja neinum öðrum hvernig honum á að líða með þetta,“ sagði Skotinn.

„Ég er vonsvikinn að sjá á eftir góðum vini. Hann er frábær leikmaður og stórkostleg manneskja. Hann ýtti mér áfram og gerði mig að betri leikmanni. Arfleið hans er tryggð. Hann hefur gert svo mikið fyrir félagið.“

Alexander-Arnold hefur leikið með Liverpool allan sinn feril, tæplega fjögur hundruð leiki og unnið allt sem hægt er að vinna í rauða búningnum.

Leikur Liverpool og Arsenal endaði með 2-2 jafntefli. Heimamenn komust í 2-0 í fyrri hálfleik en gestirnir, sem eru í 2. sæti deildarinnar, komu til baka í þeim seinni.


Tengdar fréttir

Real Madrid vill fara í viðræður við Liverpool um Trent

Trent Alexander-Arnold yfirgefur Liverpool þegar samningur hans rennur út í lok júní og fer til Real Madrid á frjálsri sölu. Spænska stórliðið vill þó fá hann fyrr og vill nú viðræður við foráðamenn Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×