Skoðun

Þjóðin mótar nýja stjórnar­skrá

Gunnar Hersveinn skrifar

Fátt er betra fyrir samfélagið en öflugur borgari sem hefur hugrekki til að taka þátt, mæla með og mótmæla. Borgara sem sofnar á verðinum er á hinn bóginn sama um það sem gerist næst, hann er skeytingarlaus um framtíðina og horfist ekki í augu við að hann verði síðar samábyrgur gagnvart kjörum næstu kynslóðar.



„... saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu," segir í aðfararorðum að frumvarpi til stjórnskipunarlaga. Enginn getur afsalað sér þessari ábyrgð.



20. október verður þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, þar verður m.a. spurt hvort leggja eigi tillögurnar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Borgari sem telur sér trú um að þetta sé léttvæg spurning og ætlar að sofa heima hefur glatað trúnni á eigin kraft og samtakamátt og sýnir skeytingarleysi, ekki síst gagnvart næstu kynslóðum.



Hver borgari hefur allar stundir tækifæri til að láta til sín taka í samfélaginu, til að gagnrýna og til að byggja upp. Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október er sérlega mikilvæg því hægt er að tjá sig um þýðingarmikið verkefni sem hefur staðið yfir í mörg ár. Spurt verður m.a. um hvort lýsa eigi náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, sem þjóðareign.



Við þekkjum ótal dæmi úr sögunni um þjóðir sem hafa glatað auðlindum sínum í hendur annarra sem hafa eytt þeim. Þjóðir hafa verið sviptar ríkidæmi sínu, stundum með ofbeldi en einnig oft með blekkingum eða bara vegna þess að þær sofnuðu á verðinum.

„Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru," segir í 33. gr. í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta líta Íslendingar á sem órjúfanlegan þátt í lífi sínu, sem enginn getur tekið frá þeim. Þó kveður núverandi stjórnarskrá ekki á um þennan rétt og eru mörg dæmi til um þjóðir sem hafa glatað þessum verðmætum.



Hlustið ekki á úrtöluraddir, takið bara þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×