Árlega slasast um 180 þúsund börn innan Evrópusambandsins af völdum aðkeyptra vara. Nú hefur í fyrsta sinn verið opnað alþjóðlegt vefsetur á vegum OECD sem tekur saman í sameiginlegan gagnagrunn innkallaðar vörur á heimsmarkaði og ástæður innköllunarinnar.
Neytendastofa greinir frá því að kostnaður á heimsvísu vegna slysa og dauðsfalla af völdum vöru sé stjarnfræðilega hár, eða rúmlega 123 billjónir íslenskra króna.
Samkvæmt upplýsingum um Rapex-skýrslu fyrir árið 2011 eru leikföng og fatnaður algengustu vörurnar sem eru innkallaðar. Upprunaland vöru er í meira en helmingi tilvika Kína.
Vefsetrið var opnað í síðustu viku og þar geta neytendur, innflytjendur og dreifingaraðilar séð á einum stað allar vörur sem hafa reynst vera hættulegar og verið afturkallaðar af markaði.
Til að byrja með eru skráðar vörur einungis frá Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Ástralíu, en á næstu mánuðum munu fleiri lönd skrá vörur sem þar hafa verið innkallaðar. Slóð vefsíðunnar er http://globalrecalls.oecd.org/.- sv
Um 180.000 börn slasast á ári
