Bolli Thoroddsen vann til silfurverðlauna á heimsmeistaramóti í hvítabeltisflokki í brasilísku jiu jitsu í Los Angeles á dögunum.
„Ég hef aldrei verið þekktur fyrir íþróttaafrek, er að skríða yfir þrítugt, og vikuna áður var ég í skemmtiferð með vinum mínum í Las Vegas þar sem farið var á stór hlaðborð á morgnana, hangið við sundalaugarbakkann á daginn og næturlífið skannað á næturnar," segir Bolli á léttu nótunum.
Bolli hefur búið í Tókýó undanfarin ár þar sem hann stundar nám og starfar. Hann keppti á heimsmeistaramótinu með liði sínu Triforce frá Tókýó en þátttendur á mótinu eru á annað þúsund. Þá fylgjast mörg þúsund áhorfendur með gangi mála.
Bolli keppi í 82-88 kg flokki og vill leggja áherslu á að hvíta beltið er fyrsta gráðan í íþróttinni.

„Ég hef æft íþróttina í eitt ár en áður hafði ég æft aðrar sjálfsvarnaríþróttir þ.m.t. hefðbundið jiu jitsu og kick box," segir Bolli. Hann kynntist brasilísku jiu jitsu í Mjölni.
„Ég fór að æfa þessu tilteknu íþrótt vegna aðdáunar á Gunnari Nelson," segir Bolli sem kíkti á æfingu með vini sínum, Hreiðari Hermannssyni, fyrir ári. Bolli ætlaði einmitt að sjá Gunnar í UFC-bardaga í Las Vegas í lok maí.
„Eins og alþjóð veit þá meiddist Gunnar því miður en við ákváðum að fara til Vegas engu að síður. Í ljós kom að viku síðar var heimsmeistaramótið í brasilísku jiu jitsu í Los Angeles og þá var ekki aftur snúið," segir Bolli. En ætli vika í Vegas hafi verið góður undirbúningur fyrir keppni á heimsmeistaramóti?

„Þetta var ekki beinlínis kjörundirbúningur og segir líklega eitthvað um styrkleika hvítabeltisflokksins. Þó má segja að „æfingabúðirnar" í Vegas hafi skilað mér andlega hressum og kátum inn í keppnina," segir Bolli. Hann hvetur alla til þess að reyna fyrir sér í íþróttinni hjá félögum sínum í Mjölni.
„Það er hægt að komast í gott form og ná árangri á alþjóðavettvangi á einungis ári, jafnvel fyrir meðaljón í íþróttum skrifstofublók eins og mig."