Skip á vegum Orkustofnunar hefur í haust safnað borkjarnasýnum af botni Skjálfanda. Rannsóknirnar eru meðal annars byggðar á skýrslu sem tveir jarðvísindamenn frá ÍSOR unnu, þeir Bjarni Richter og Karl Gunnarsson, og snúast ekki aðeins um leit að gasi.
Bjarni segir að ef þarna finnist merki um kolvetnisgas muni menn horfa bæði til þess að þarna geti verið annaðhvort gaslindir og olíulindir. Það haldist í hendur. Hann segir auðveldara að finna gas á olíusvæðum þar sem það eigi greiðari leið upp á yfirborð.
Stundum getur þó einnig sést náttúrulegur olíuleki frá olíulindum og segir Bjarni að þeir hafi
fregnað af því að menn hafi séð olíuslykjur á Skjálfandaflóa sem ekki sé hægt að skýra með ferðum báta og þess háttar. Þetta þurfi að skoða betur ef í ljós kemur að þarna sé spennandi gas á ferðinni.

„En klárlega ef það kemur í ljós að þarna sé olíugas á ferðinni þá held ég að menn þurfi að skoða það nánar hvort það sé einhver möguleiki á því að þarna séu einhverjar auðlindir að ráði,” segir
Bjarni. Viðtalsbúta við Bjarna úr þættinum mátti sjá í frétt á Stöð 2 í kvöld.